Að koma hreyfingu í vana
- Ágústa Ýr
- Apr 15
- 2 min read
Updated: Apr 27
Það eru nokkrir punktar sem eru hjálplegir við að koma hreyfingu í vana.
Orkan okkar er takmörkuð auðlind, sérstaklega þegar við erum að eiga við króníska sjúkdóma og þá skiptir skipulag miklu máli. Við þurfum að hafa fyrir því að plana hreyfingu og slökun. Ekki bara að taka tímann frá fyrir það, raða því hátt á forgangslistann því annars situr það á hakanum heldur líka að ákveða hvað fer út á móti. Allar klukkustundir sólarhringsins eru nú þegar uppteknar fyrir misgáfulega hluti. Því þurfum við að ákveða hvað við ætlum að gera, hvar, hvenær og hvað fer út á móti.
Einföldum hreyfinguna einnig eins og við getum. Höfum sem fæstar hindranir í veginum. Ef við ætlum okkur of mikið sem dæmi að velja ákveðin föt, fara í spandexgallann og æfa á ákveðnum stað, þá er ólíkegra að við stöndum við það. Sérsaklega á þreyttari dögum því orkan okkar er takmörkuð auðlind eins og áður sagði. Grunnform einfaldar okkur lífið með því að þið þurfið aðeins að kveikja og ég sé um rest. Hægt er að velja um rólegri og styttri æfingar (hámarki 30 mín). Það gefur okkur tækifæri á að velja okkur hreyfingu sem við getum gert án þess að hafa mikið fyrir því t.d. hafa fataskipti á þeim dögum sem bjóða upp á styttri tíma í hreyfingu/slökun.
Þá skiptir miklu máli að við séum að byrja nógu rólega, sérstaklega ef við erum að hreyfa okkur lítið fyrir. Fyrst um sinn að gera frekar aðeins of lítið, þannig okkur langi að koma aftur. Getum prófað að setja hámark á hreyfinguna þannig maður fari síður fram úr sér á góðu dögunum þegar manni langar að sigra heiminn.
Sem dæmi að fyrstu 2 vikurnar veljum við styttri hreyfingu 10-15 mín og aukum svo við. Með því drögum við úr líkunum að við missum okkur í gleðinni á sama tíma við búum til hvata til að gera meira á morgun. Grunnform býður upp á mismunandi tímalengd á æfingum og slökun. Nýttu þér það.
Það er eðlilegt að a.m.k fyrstu 6 vikurnar eru krefjandi. Stillum væntingarnar í hóf, það er erfitt að byrja en það er svo dásamlegt að finna að boltinn fer að rúlla og maður stendur við það sem maður segir. Þá byggir maður betra sjálfstraust -> andlega heilsan bætist og loks líkamlega heilsan líka. Það tekur 18-254 daga að búa til nýjan vana, það fer allt eftir hversu móttækilegur maður er fyrir nýja vananum.
Gefum okkur tíma og höfum gaman að þessu.