Hreyfisnarl, hvað er það?
- Ágústa Ýr
- Jun 7
- 2 min read
Við vitum flest öll að það er gott að hreyfa sig. Ávinningur hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu er ótvíræður. Þegar við skoðum hversu margir ná viðmiðum Embætti landlæknis um daglega hreyfingu kemur í ljós 60-70% af fullorðnum ná ekki viðmiðum. Hvað stendur í vegi fyrir því að við séum að hreyfa okkur?
Tími virðist vera aðal ástæða þess að einstaklingar ná ekki að hreyfa sig. Dagarnir okkar eru þéttbókaðir. Þegar við síðan höfum tíma þá reynist okkur erfitt að moka okkur af stað. Við þurfum að fara í spandexgallann, ákveða hvernig við ætlum að hreyfa okkur og fara á ákveðinn stað. Því fleiri hindranir í veginum því erfiðara verður að koma hreyfingu inn í daglegt líf. Ef ég næ ekki klukkustund á fullu spani þá er bara best að sleppa því alveg? Eða ég fer alveg í hina áttina og keyri mig út aftur og aftur... sem er gríðarlega orkufrekt. Þessi allt eða ekkert hugsun reynist okkur erfið.
Við höfum öll ímynd af því í huganum hvernig æfing á að líta út, hvernig við æfðum einu sinni eða hvernig Solla vinkona er að æfa.
Þegar við stöndumst ekki kröfurnar sem við setjum þá verður sjálfsmyndin og sambandið okkar við hreyfingu neikvæð.
Þegar við erum komin í þennan vítahring hvar eigum við þá að byrja?
Hreyfisnarl gæti þá verið lausnin. Hugmyndafræðin miðast að því að hlutir sem eru á hreyfingu haldast á hreyfingu. Þannig verðar litlar bætingar að stórum ávinningi.
Hreyfing er brotin niður í viðráðanlega bita sem auðveldara er að melta, frekar en stórar hreyfimáltíðir. Þetta geta verið lotur frá 60 sek - 10 mín eins oft yfir daginn og hentar.
Rannsóknir sýna að það að hreyfisnarla er jafngott ef ekki betra t.d. fyrir hjarta- og æðakerfi og þyngdarstjórnun en að hreyfa sig einu sinni yfir daginn í 30 mínútur.
Rannsóknir hafa sýnt sem dæmi:
Að ganga 2 mín á hverri vakandi klst brennir 400 kcal aukalega á viku og dregur úr ótímabærum dauðsföllum um 33%.
Kröftug stigaganga í 60 sek x 3 í viku eykur þol jafn mikið yfir 6 vikna tímabil eins og 3 x 30 mín ganga á miðlungs álagi.
Hnébeygjur og sitjandi kálfalyftur hafa einnig sannað gildi sitt til að bæta efnaskiptin okkar og lækkað blóðsykurssveiflur eftir máltíð. Að brjóta upp kyrrsetuna eins oft og við getum yfir daginn hjálpar efnaskiptunum okkar.
Kostir hreyfisnarls eru fjölmargir. Fyrir utan almennan ávinning af hreyfingu t.d. að byggja upp/halda í vöðvamassann okkar og auka þol, þá er fyrirhöfnin lítil. Við þurfum ekki endilega að skipta um föt eða fara á ákveðinn stað. Hindranirnar eru því færri og meiri líkur á að við stöndum við það sem við ætlum okkur. Það byggir upp sjálfstraustið okkar og breytir viðhorfi okkar til hreyfingar.
Það frábæra við hreyfisnarl er að það hentar öllum og er yfirleitt viðráðanlegra fyrir einstaklinga sem hreyfa sig lítið eða er verkjað. Við þurfum bara að finna hvaða bitar eru meltanlegir fyrir okkur til að byrja á. Það getur verið 60 sek af hnébeygjum (standa upp og setjast) alltaf klukkan 14 á daginn. Þannig byrjum við að byggja upp styrk og svo er auðvelt að auka við tíðni, tíma og ákefð.
Komum boltanum af stað saman og náum árangri.